top of page
Search
arnar7

Rithöfundurinn og hótelstýran


James Norman Hall bjó á Hótel Oddeyri þar sem Kristín Eggertsdóttir réði ríkjum

Í haust verða 99 ár liðin frá heimsókn James Norman Hall til Akureyrar. Hann kom til bæjarins í september árið 1922 í því skyni að ná í efnivið fyrir bók sem hann hugðist skrifa um Ísland. Hann bjó á Hótel Oddeyri um þriggja mánaða skeið, sat við skriftir og skráði niður það sem fyrir augu bar. Meðal þess sem James varð vitni að og skráði í bækur sínar var þegar draumur Akureyringa um rafvæðingu bæjarins varð að veruleika þann 30. september 1922.


Ýmsar áhugaverðar persónur koma við sögu í frásögn James. Kristín Eggertsdóttir hótelstýra á Hótel Oddeyri kemur töluvert við sögu. Ekki verður annað séð af skrifum James en hann hafi verið eini gestur hótelsins þann tíma sem hann dvaldi í bænum. Sögusviðið býður þannig upp á ýmsar skemmtilegar vangaveltur; stórt og reisulegt timburhús, hótelstýra og erlendur gestur. Aðrar sögupersónur í skrifum James eru Lára Ólafsdóttir en hún rak tóbaksbúð á Akureyri á þessum tíma, Vernharður Þorsteinsson kennari, Sigurður Sumarliðason leiðsögumaður og Snæbjörn Þórðarson bóndi í Svartárkoti í Bárðardal.


Sléttum áratug eftir dvölina á Akureyri gaf James út aðra bók. Hún átti eftir að skipa sér á sess meðal þekktustu skáldsagna bókmenntasögunnar. Mutiny on the Bounty (Uppreisnin á Bounty) kom út árið 1932. Bókin um Ísland kom aldrei út en hugleiðingar James um dvölina á Akureyri hafa varðveist. Árið 1976 skrifaði prófessor Sigurður Þórarinsson grein um ferðalag James til Akureyrar. Greinina byggði hann aðallega á tveimur bókum: My Island Home og In Search of Paradise — The Nordhoff-Hall Story. Þýðingar á beinum tilvitnunum sem hér birtast eru úr grein Sigurðar.


Gefum James Norman Hall orðið.


„Það er farið að síga á seinni hluta september. Meir en mánuður er liðinn síðan ég kom til Íslands, og nú dvelst ég á Akureyri, hinum fámenna höfuðstað Norðurlands. Ég hef setzt að fyrst um sinn á hóteli, tveggja hæða timburhúsi á eyri, sem teygir sig langt út í fjörðinn. Herbergisgluggar mínir vita mót suðri, og sér þaðan yfir fjarðarbotninn til fjalla, hvítra hið efra af fyrsta haustsnjónum. Hér hef ég setið marga stund og horft á skýin speglast í vatnsfletinum, á fjallsvegginn mikla í austri í síbreytilegri birtu og á skuggana í giljum og gljúfrum, sem verða æ dimmblárri og falla fyrr á með degi hverjum, eftir því sem líður á haustið og dagarnir styttast.


Eflaust ætti ég að vinna meira mér að gagni. Ég hef meðmælabréf til fólks í bænum, sem ég hefði átt að vera búinn að sýna, og í stað þess að leita uppi tungumálakennara, hef ég verið einn að berjast vonlausri baráttu við flækjur íslenzkrar málfræði. En það er erfitt að slíta sig frá þessari einveru, þessari dásamlegu nautn einsemdar, sem er eitt af því fyrsta og bezta, sem maður verður aðnjótandi á ferðalagi í framandi landi. Hingað til hef ég aðeins eignazt tvo kunningja á Íslandi, hótelstýruna og konuna sem rekur tóbaksbúð við götuendann. Að utan séð hefur hótelið auðnarsvip strandhótels að loknum ferðamannatímanum. Vindutjöld eru dregin fyrir alla glugga nema á mínu herbergi, því að hér eru engir aðrir gestir og verða ekki fyrr en næsta sumar, segir hótelstýran mér. Ferðamenn koma ekki til Íslands svo seint á árinu, og síðan heimsstyrjöldinni lauk, hafa þeir verið mjög fáir, einnig að sumarlagi. Augljóst er, að ég mun hafa landið fyrir mig einan til könnunar á komandi vetri.


Hótelstýran mín er fámálug, alvarleg kona. Þótt hún sé ágæt í ensku, opnar hún sjaldan munn nema til þess að svara spurningum. Þegar hún hefur reitt fram matinn handa mér á matmálstímanum, sezt hún við saumaskap sinn við gluggann og er svo hljóð, að ég heyri þegar saumnálin snertir fingurbjörgina, og ég fyrirverð mig fyrir glamrið í diskunum, þar sem ég sit einn að snæðingi. Þegar ég er búinn að borða, kinkar hún til mín kolli til merkis um, að ég eigi að ganga út, og ég fer í gegnum manntóma dagstofuna, upp stigann og inn í herbergið mitt eins hljóðlega og mér er unnt, svo að ég trufli ekki — ég veit raunar ekki hvern, eða hvað.


Þögnin ræður ekki aðeins í þessu herbergi, heldur einnig í húsinu, á götunni, í bænum, í landinu sjálfu. Ég hef fundið þetta frá fyrsta degi Íslandsdvalar minnar. Hún er eins og eitthvað í nálægð manns, eitthvað, sem maður hálft í hverju býst við að sjá, jafnframt því að finna það og heyra það, ef svo má segja. Þegar ég er að lesa í herberginu mínu, hætti ég stundum í miðri málsgrein og fer að hlusta. Á rölti úti hrekk ég stundum upp við krunk í hrafni langt úti í móum að bæjarbaki, eða við rollujarm frá fjallshlíðinni handan fjarðar. Ég hef heyrt sömu hljóð annars staðar án þess að veita þeim sérstaka eftirtekt. En hér virðast þau, með einhverjum hætti, krefjast eftirtektar, og maður miðar þögnina við þau með sama hætti og maður miðar víðerni óendanlegrar sléttu við örsmæð reiðmanns á ferð yfir hana.

-

Hótelstýran mín sat við gluggann, þegar ég gekk framhjá gegnum dagstofuna á leið minni út. Hún svaraði kveðju minni á íslenzku, og ég skildi ekki aðalorðið. „Þú verður að þýða eins og vant er,” svaraði ég dálítið stúrinn. „Ég er hræddur um, að mér hafi ekki sótzt vel íslenzkunámið síðustu viku, en nú er ég á leið til kennarans.“ „Gleður mig,“ svaraði hún alvarleg. „Þú ættir vissulega að leggja hart að þér til að læra mál okkar, úr því að þú ætlar þér að vera hér í allan vetur. Það sem ég sagði var, að nú væri dúnalogn.“ „Dúnalogn, er það calm?“ „Það er meira en calm. Hvernig á ég að orða það? Það er svo mikið logn, að það bærir ekki dúnhnoðra.“Ég mun ávallt minnast þessarar athugasemdar með þakklæti.


Það var eitthvað töfrandi við þetta orð, og ég fann hið innra með mér, hve lygnt raunverulega var og hve fallegur þessi litli bær var á slíkum degi. Göturnar voru mannlausar og búðirnar lokaðar eins og vant var á mánudagsmorgnum fram undir hádegi. Hús og búðir sýndust svo lítil sem væru þau í gluggum leikfangabúðar og biðu eftir einhverju barni til þess að koma litauðugu lífi í gang. Úti á Pollinum hallaði sjómaður sér út yfir borðstokkinn á skektu sinni og virtist sem í sælum svefni, og skektan virtist svífa í loftinu, því að vatnsflöturinn var sem spegill, en fjöllin sveipuð bjartri móðu, og manni fannst maður vera umluktur óendanlegu ljóshafi. Tveir hrafnar, sem virtust óvenju svartir, flugu til vesturs sem væru þeir síðustu leifar næturmyrkursins, sem sólin hafði splundrað og dreift. Ég horfði á eftir þeim, þar til þeir hurfu líka út í sólskinið, og dúnalognið ómaði í eyrum sem hljómur klukku, sem er nýlega hætt að hringja. Ég rölti áfram og hugsaði um dúnalogn og önnur falleg, íslenzk orð, og þegar þar að kom, að ég var farinn að velta fyrir mér beygingum þeirra, var ég kominn út úr bænum. Það virtist bjánalegt að snúa nú við og fara í tíma til Mr. Thorsteinssons — hreinn glæpur að halda sig innanhúss í slíku veðri — svo að ég hélt áfram hátt upp í hlíð með útsýn yfir bæinn og Eyjafjörð endilangan. Þar sat ég sem eftir var dags og las þýðingu Dasents á Brennu-Njáls sögu, eða Njálu eins og Íslendingar segja.

-

Þegar ég sneri aftur heim til Akureyrar þetta kvöld, hafði himinninn hulizt hálfgagnsæjum skýjafellingum, sem virtust verða til úr engu. Fyrstu stjörnurnar lýstu gegnum þær, en áður en ég var kominn hálfa leið í bæinn, var farið að snjóa, fyrsta snjó haustsins á láglendi, stórum flygsum, og enn var enginn andvari, er bærði þær. Þeim fjölgaði æ hraðar, jörðin huldist hvítu lagi eins til tveggja þumlunga þykku. Síðast svifu niður gagnsæjar, flipóttar flögur. Það var dásamlegt að sjá fjallatindana koma fram, er élinu létti, skýrt teiknaða og ennþá sveipaða daufri aftanglóð.


Ég hélt niður móana og niður á veginn, er lá til bæjarins. Rökkrið var orðið að myrkri, áður en ég komst niður á hjallann upp af bænum. Þaðan sá ég, að merkileg breyting hafði á orðið. Öll hús í bænum voru uppljómuð innan frá og ekki til sá gluggi, að ekki varpaði hann mynd sinni á snjóinn. Það rifjaðist þá upp fyrir mér, að það átti að ræsa vatnsrafstöðina þetta kvöld. Það var búið að tala um þetta í marga daga. Hótelstýran mín, rakarinn, bóksalinn, póstmeistarinn, allir höfðu í hverju samtali komið inn á þetta: ,,En þegar við fáum nýju raflýsinguna . . .“ Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því, hversu mikils virði þetta var fólki svo nærri heimskautsbaug. Hingað til hafði verið mjög dimmt í bænum um nætur. Steinolía er dýr hér, því að hún er langt að flutt og olíulampaljós varð að spara. Nú gátu allir notið ljóssins, náðargjafar vatns, er féll af fjöllum ofan.


Ég leit inn í tóbaksbúðina, sem var böðuð í ljósi. Gamla sölukonan var ekki langt frá því að verða málug í gleði sinni. „Að hugsa sér,“ sagði hún, „að við skulum hafa lifað í myrkri allar þessar löngu vetrarnætur. Sjáðu, það þarf aðeins að hreyfa þennan hnapp,“ og hún sýndi mér, hvernig þetta gekk til. Öll börn í bænum höfðu safnazt saman fyrir framan járnvöruverzlun, þar sem mörgum gerðum af ljósakrónum, sem kveikt hafði verið á, var stillt út til sölu. Feður og mæður gengu fram og til baka framan við hús sín og virtust vart trúa því, að þetta væru þeirra eigin hús. Í stað daufa olíulampans, sem verið hafði í bókabúðarglugganum, var nú komið rafljós, svo að auðvelt var að lesa bókatitlana. Auk íslenzkra bóka — sögubóka, ævisagna, Ijóðabóka — var þarna eintak af Danasögu Saxa, esperantó málfræði, iðnsaga á þýzku, Bleak House Dickens á dönsku, nokkrar af sögum Robert Louis Stevensons, einnig á dönsku. Af bókum á ensku sá ég sögu siðbótarinnar, útgáfu af ljóðum Swinburnes og verk Francis Bacon’s: Essays, Civill and Morall. Óneitanlega mikil fjölbreytni í litlum bæ á norðurströnd Íslands, og þetta voru aðeins bækurnar í glugganum. Bókin eftir Bacon virtist komast í vasa, svo að ég keypti hana, því að ég hafði aldrei lesið allar ritgerðir hans.“


Hægt er að hlusta á ítarlegri umfjöllun um ferðalag James Norman Hall til Akureyrar í tveimur hlaðvarpsþáttum.



258 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page