Í hlaðvarpsþáttum Sagnalistar Leyndardómar Hlíðarfjalls segir lítillega frá ungum breskum setuliðsmanni að nafni John Crook. Crook kom til Akureyrar í júní 1940 og dvaldist ásamt herdeild sinni í Kræklingahlíð og Hörgárdal um tveggja ára skeið m.a. við æfingar í vetrarhernaði í Hlíðarfjalli.
Undirritaður, sem jafnframt er stjórnandi þáttanna, komst á snoðir um vefsíðu með upplýsingum um herskyldu John Crook. Svo virðist sem afkomendur Crook eigi heiðurinn af síðunni sem jafnframt hefur að geyma myndir frá dvöl hans á Íslandi á stríðsárunum. Ein mynd vakti sérstaka athygli en hún sýnir hinn unga setuliðsmann með herbragga og kunnuglegt fjall í bakgrunni. Myndina sendi Crook heim til fjölskyldu sinnar í Englandi í febrúar 1941. Á bakhlið hennar hripaði hann niður „somewhere in Iceland“. Er það allt og sumt sem afkomendur John Crook hafa hingað til haft í höndunum þegar kemur að þessari tilteknu mynd af honum á Íslandi á hernámsárunum. Einungis þessi orð hans einhversstaðar á Íslandi, engin nánari lýsing á staðháttum.
Ég ákvað að láta reyna á mátt fésbókarinnar til að kanna hvort ég gæti fengið úr því skorið hvar myndin væri tekin. Ekki liðu nema örfáar mínútur frá því að ég deildi henni og þar til niðurstaða fékkst. Myndin af John Crook er tekin í braggahverfinu við Djúpárbakka í Hörgárdal þar sem hann horfir í átt til Laugalandsheiðarinnar, vestan Hlíðarfjalls.
Ég hafði upp á syni John Crook. Hann heitir Tim og býr í Englandi. Hann hefur rannsakað og skrifað mikið um styrjaldarárin. Hann er t.a.m. einn af handritshöfundum bresku stríðsdramaþáttanna Mrs. Wilson sem sýndir voru á RÚV og skarta þeim Ruth Wilson og Iain Glen í aðalhlutverkum. Ég ákvað að senda honum skilaboð á facebook. Ég vildi láta hann vita að nú lægi það fyrir hvar myndin af föður hans væri tekin og að sumir braggarnir þar, þ.e. á Djúpárbakka, stæðu enn. Ég lét nýja mynd fylgja með sem tekin er frá sama eða svipuðu sjónarhorni og sú frá árinu 1941. Þegar gerð hlaðvarpsþáttanna lauk í lok sumars hafði ég ekki fengið nein viðbrögð frá Tim Crook. Á dögunum dró til tíðinda.
Í svari sem ég fékk frá Tim segir hann föður sinn ætíð hafa talað vel um Íslendinga og dvölina á Íslandi. Þessi tvö ár í lífi hans hefðu verið mikið ævintýri fyrir hann, skíðaiðkunin, fjallaklifrið og vistin við erfiðar aðstæður í kulda og einangrun. Og Tim gleðst yfir því að vera kominn með svar við ráðgátunni um hvar myndin af föður hans er tekin fyrir tæpum 80 árum síðan og yfir því að sjá mynd af staðnum þar sem faðir hans stóð eins og staðurinn lítur út í dag.
What a wonderful treasure of discovery and explanation of a legendary image of my late father in Iceland. Thank you so much for calibrating the location with an image from now. I shall forward this and your information to my two brothers who will be enchanted. Your research on British and American presence in Iceland during this period must be so fascinating. And thank you so much for sharing and taking an interest. Sincerely and respectfully, Tim Crook.
Brynjar Karl Óttarsson
Comments